Auglýst eftir sýningartillögum

Skaftfell, myndlistarmiðstöð Austurlands, á 20 ára starfsafmæli á næsta ári. Til að fagna þessum tímamótum auglýsir Skaftfell eftir tillögum frá listamönnum og/eða sýningarstjórum fyrir sýningu í 150 fm sýningarsal miðstöðvarinnar sumarið 2018. Æskilegt er að tillagan vísa í langtímasamstarf milli miðstöðvarinnar og Tækniminjasafns Austurlands. Útfærsla og umgjörð sýningarinnar er alveg opin en í boði verður að vinna með safneign og verkstæði Tækniminjasafnsins.

Seyðisfjörður hefur lengi verið þekktur sem öflugur menningarbær þar sem vel hefur tekist til að vernda gömul hús. Í þessum litla bæ er að finna listamannanýlendu sem margir innlendir og erlendir listamenn hafa sest að í gegnum tíðina og búið sér til heimili og vinnuaðstöðu í skemmri eða lengri tíma. Hópurinn telur á fjórar kynslóðir en stöðug endurnýjun hefur verið á þessum kjarna og heimili listamannana ganga á kaupum og sölum þeirra á milli. Á þessum forsendum hefur starfsemi Skaftfells dafnað, ásamt fleiri listafyrirbærum á Seyðisfirði s.s. Tækniminjasafni Austurlands, LungA hátíðinni, sumartónleikaröð Bláu kirkjunnar, Heima, Lunga-skólinn ofl. Skaftfell og Tækniminjasafnið vinna saman á ári hverju að mörgum verkefnum, m.a. við námskeiðið Vinnustofan Seyðisfjörður sem hefur verið haldið árlega frá 2001 í samstarfi við Listaháskóla Íslands og Dieter Roth Akademíuna.

Nánar um tillöguna

Eftirfarandi þemu fyrir sýninga koma sterklega til greina en eru alls ekki tæmandi: tækni- og samskiptasaga Seyðisfjarðar, samtal á milli heimamanna, landshluta og við umheiminn, tímaskörun og tímaleysi.

Gera þarf grein fyrir hugmyndalegum forsendum, þátttakendum og ferillskrá, framkvæmd og helstu kostnaðarliðum. Í kjölfarið tekur fagráðið saman athyglisverðustu tillögurnar og lokatillagan valin í samstarfi við Tækniminjasafnið. Fagráð áskilur sér rétt til að hafna öllum tillögum.

Skaftfell getur lagt til sýningarinnar innanlandsflug, kynningarpakka, vinnuframlag og greitt þóknun samkvæmt framlagssamningi en rannsóknarvinna, efniskostnaður, og utanlandsflug ef það á við, þarf að fjármagna í samstarfi við þátttakendur.

Umsóknarfrestur er 15. sept 2017 og tillögur skal senda til admin@archive.skaftfell.is. Vinsamlegast reynið að hafa stærð gagna í lágmarki.

Nánar má lesa um sögu Skaftfells hér: https://archive.skaftfell.is/skaftfell/saga-og-stofnun

Grunnmynd af sýningarsal

Skaftfell_salur_2d_1